Hótel Rangá

63°46’49.1″N 20°17’53.8″W

Vorið 2014 var tekin í notkun glæsilegasta aðstaða landsins til stjörnuskoðunar á Hótel Rangá. Um 150 metra frá hótelinu sjálfu er hús með afrennanlegu þaki og er pláss fyrir allt að 30 gesti í einu.

Í húsinu eru tveir hágæða tölvustýrðir stjörnusjónaukar frá Celestron sem nota má til að skoða himininn við bestu aðstæður, fjarri allri truflandi ljósmengun. Allir gestir sem kíkja í stjörnuskoðunarhúsið fá leiðsögn um himinhvolfið.

Í nóvember 2014 var aðalsjónauki Stjörnuskoðunarfélagsins, stærsti sjónauki landsins, fluttur í aðstöðuna á Hótel Rangá. Þangað eru félagsmenn ávallt velkomnir þegar vel viðrar. Sjónaukinn var hreinsaður, skipt var um aukaspegil og sjónaukinn settur á hjól svo hægt er að rúlla honum út á lítinn pall þar sem gott útsýni er í allar áttir. Sjónaukinn var áður undir hvolfþakinu á Valhúsaskóla en í hans stað var settur 12 tommu tölvustýrður sjónauki.

Aksturstími: Rétt rúm klukkustund.

Krýsuvík

63°53’09.7″N 22°03’27.4″W

Annað slagið fara félagsmenn í Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness í stjörnuskoðun við gömlu súrheysturnana við Grænavatn í Krýsuvík. Þar er himinninn eins og best verður á kosið. Lengi vel stóð til að reisa þar aðstöðu fyrir félagið en fallið hefur verið frá þeim áformum.

Kaldársel

64°01’20.8″N 21°52’21.9″W

Kaldársel inn af Hafnarfirði er meðal bestu stjörnuskoðunarstaða í næsta nágrenni höfuðborgarinnar. Þaðan er gott útsýni til suðurs en mikil ljósmengun frá byggðinni spillir norðvesturhimninum. Þangað er nokkurra mínútna akstur frá því komið er inn fyrir bæjarmörk Hafnarfjarðar.

Akið varlega á leiðinni inn að Kaldárseli! Vegurinn frá Reykjanesbraut fer fyrst framhjá húsum hestamannafélagsins Sörla. Þar eru varasamar hraðahindranir og eins geta hestar fælst. Við skógrækt Hafnarfjarðar tekur við hlykkjóttur malarvegur. Fylgist með skiltinu sem vísar veginn. Þegar búið er að aka framhjá nokkrum sumarbústöðum er skilti við veginn sem vísar leiðina í Kaldársel. Slökkvið á háu ljósunum þegar þið komið upp á hæð þar sem sést í hús sumarbúða KFUK. Sjónaukunum er yfirleitt stillt upp á knattspyrnuvelli hinum megin við hús sumarbúðanna. Hægt er að leggja meðfram veginum og bera dótið yfir 40 cm malarhrygg við völlinn.

Þingvellir

64°15’48.3″N 21°07’03.6″W

Hakið á Þingvöllum er annar vinsæll staður til norðurljósa- og stjörnuskoðunar. Útsýni er gott til allra átta, þótt ljósmengun Höfuðborgarsvæðisins eyðileggi vesturhluta himins að miklu leyti.